HELSTU ÁFANGASTAÐIR
Kúta-strandbærinn hefur lengi verið vinsælasti staðurinn á Balí en það þýðir ekki að hann sé sá besti. Jú, vissulega er þar líflegasta næturlífið og þéttasta byggðin, en hin sanna Balí með sterk einkenni og menningu fer nánast hallloka undan túrismanum.
Seminyak-ströndin tekur við af Kúta og vart má sjá hvar skilin eru, en þegar lengra er komið inn í Seminyak-bæinn slær annan hljóm, verslanirnar verða fínni, kaffihúsum fjölgar á kostnað baranna, hótelin stækka, allt verður friðsælla... og dýrara.
Jimbaran er syðsti strandbærinn á vesturströndinni og er frægur fyrir sjávarréttagrill og rómantíska lifandi músík. Allir ættu að eiga þarna eitt kvöld yfir grilluðum humri, bökuðum fiski og gufusoðnum krabba.
Sanúr-bærinn er austan megin á því nesi sem flestir strandbæirnir eru við. Austan megin er sjórinn aðdjúpur og öldurnar við hæfi brimbrettahetja, en við Sanúr er aðgrunnt og ströndin því öruggari.
Úbúd má kalla hjarta Balí. Draumkenndur fjallabær þar sem lista- og menningarlíf eyjaskeggja vex og grær betur en nokkurs staðar. Fjarri ströndinni hægist á og túristar breytast í landkönnuði.
Saga Balí á Wikipedia
Heilsufar í Balí
Helstu staðreyndir um Balí
Lesefni tengt Balí
Wikitravel um Balí
Verðlag í Balí