DAGUR HINNA DAUÐU
Hin árlega þjóðhátíð Mexíkóbúa, Dagur hinna dauðu, hefur öðlast sinn sess í sögu þjóðarinnar
og er orðin kunnug heiminum öllum. Þessi hátíð, sem fer fram á tímabilinu 31. október til 2.
nóvember, sameinar fjölskyldu og vini sem biðja fyrir og minnast vina og fjölskyldumeðlima sem
fallið hafa frá. Tilgangur hennar er að styðja við þá framliðnu og hjálpa þeim við andlega ferð
þeirra til handanheima. Samkoman fagnar dauðanum á gleðilegan hátt í stað þess að horfa á
hann með sorglegum augum. Dagur hinna dauðu snýst um að viðurkenna dauðann sem
náttúrulegan hluta mannlegrar reynslu, líkt og fæðingin og æskan. Á hátíðinni verða hinir dauðu
hluti af samfélaginu þar sem þeir vakna frá eilífum svefni sínum til að taka þátt í
hátíðarhöldunum með eftirlifandi ástvinum.

Þátttakendur á degi hinna dauðu í Oaxaca í Mexíkó.
Fjölskyldur og vinir heimsækja kirkjugarða, byggja einkaaltari í kringum gröf fráfallina ástvina
sinna sem þau skreyta svo með kertum, sykurhúðuðum höfuðkúpum og gimsteinum. Eins og
hátíðin sjálf er altarið skreytt með myndmáli frumbyggja og kaþólskra hefða. Einnig koma
ástvinir með eftirlætis mat og drykkjarföng þeirra sálugu. Þá eru hengdar upp myndir af þeim
framliðnu. Gjafirnar sem ástvinir færa, eða ofrendas líkt og þær nefnast á móðurmálinu, eru
yfirleitt samansafn eftirlætis hluta viðkomandi. Tilgangurinn með athöfnunum er að hvetja
sálirnar til að heimsækja hina lifandi svo þeir heyri bænir sem beinast til þeirra.
Hátíðin á uppruna sinn að rekja til Azteka þjóðflokksins en á þeirra tímum stóð hátíðin í heilan
mánuð en nú til dags standa hátíðarhöldin í tvo daga. Fyrri dag hátíðarhaldanna, fyrsta
nóvember, er barnanna minnst og sá dagur nefnist dagur hinnar saklausu, día de los Inocenter,
eða dagur litlu englanna, día dos los difuntuos. Þann dag er sálugum börnum gefin leikföng og
sælgæti en seinni dagurinn er tileinkaður fullorðnum og eru þeim færðir hlutir á borð við áfengi,
sígarettur og sætabrauð.

Götulistafólk fagnar Degi hinna dauðu í Mexíkó.
Ýmis tákn sem tengjast hátíðinni virðast hæðast að dauðanum, t.a.m. glettnar beinagrindur og
skreyttar höfuðkúpur. Þekktasta tákn hátíðarinnar er þó vafalaust persónan La Catrina. Um er
að ræða glæsilega kvenkyns beinagrind sem listamaðurinn Jose Guadalupe Posada skapaði
listilega í kringum árin 1910-1913. Posada var þekktur fyrir háðsádeilur sínar á dauðann þar sem
hann málaði beinagrindur að framkvæma hversdagslegar athafnir.
Hátíðarhöldin snúast um að fagna lífinu, læra að bera virðingu fyrir hverfulleika þess og óttast
ekki dauðann heldur að njóta frekar hvers augnabliks.