KÚBA
Þar sem tíminn hefur stöðvast

 
Það er margt sem gerir Kúbu sjarmerandi. Margir upplifa landið sem stað þar sem tíminn hefur stöðvast enda hafa ekki beinlínis orðið miklar efnahagslegar framfarir síðan kommúnistar komust til valda. Skorturinn virðist ekki plaga fólk mikið – til þess eru Kúbverjar of lífsglaðir. Það er skemmtilegra að dansa mambó og drekka romm en að barma sér yfir stjórnarfarinu. Sólin skín í heiði, strandirnar hvítar og fólkið fagurt og þá liggur við að peningar hætti að skipta máli.

 

Upplagt er að byrja ferðalagið í höfuðborginni Havana. Miðbærinn hefur yfir sér sérstakan anda og karabíska orku, og erfitt að sjá hvor brosir breiðara: erlendu ferðamennirnir eða heimamenn sem spila og dansa á götum úti og luma jafnvel á listaverkum eða handverki til að selja fyrir dýrmæta dollara. Lífsnautnafólkið hefur gaman af að heimsækja vindlaverksmiðju Partagas í miðbænum, þar sem vindlarnir eru rúllaðir með gamla laginu, og ferðamenn eru teymdir um húsið þar sem þeir sjá alla dýrðina. Þar á bæ þykir mega gera góð kaup í vindlum.
 

Kannski splæsirðu í eins og einn góðan vindil og með smá mojito í blóðrásinni röltir eftir sjóvarnargarðinum, Malecon, þar sem unga fólkið spásserar og spjallar. Hver veit nema amerískur fornbíll aki þar hjá? Verðurðu ekki líka að kíkja á Byltingartorgið, og taka eina „selfie“ með stóru veggmyndina af Che Guevara í bakgrunninum? Ekki gleyma heldur að athuga hvort eitthvað sé á dagskrá hjá ballettflokknum, sem hefur alið af sér marga fremstu dansara heims.

 

Mörgum þykir samt mest spennandi að fara út fyrir borgina, og komast í enn meira návígi við þjóð og náttúru. Kúba er nefnilega svo miklu meira en bara Havana. Hví ekki að festa á sig froskalappirnar og kafaragrímuna og sjá hvaða litríku fiskar leynast ofan í tærum sjónum, eða hjóla eftir sveitavegunum og sjá tóbaksplönturnar svigna undan risavöxnum laufblöðunum?
 

Hafðu samband!
Leyfðu okkur að hjálpa!
Við klæðskerasníðum ferð fyrir þig á þeim tíma, af þeirri lengd og með þeim áföngum sem þú kýst.

Ferðir til Kúbu á vegum Farvel