MEXÍKÓ
Krydd, skærir litir, heillandi menning og stórbrotin náttúrufegurð

 
 
Þeir sem vilja geta sagst hafa séð öll undur heimsins þurfa að fara til Mexíkó á dauðradeginum, Día de Muertos. Þó landið sé yndislegt heim að sækja á öllum tímum árs, þá er það á þessum sérkennilega hátíðisdegi sem töfrar mexíkósks samfélags sjást hvað best.

 
Í öðrum löndum er fólki kennt að óttast dauðann og helst hundsa hann, en í landi rammkaþólskra afkomenda azteka, er dauðinn gerður að gesti í stórri veislu. Kirkjugarðarnir fyllast af lífi, tónlist og ilminum af heimalöguðum réttum. Ættingjarnir safnast samna í kringum leiðin, maríachí-bönd spila nokkur lög gegn sanngjörnu gjaldi, og leiðið breytist í veisluborð. Hátíð dauðans umbreytist því í hátíð lífsins, þar sem því er fagnað að vera til.

 
En dauðradagurinn er bara lítið brot a þvi sem gerir Mexíkó að ómótstæðilegu og einstöku landi. Það er raunar með ólíkindum hvenig Mexíkó virðist hafa komist á radarinn hjá fáum, og eflaust að þar hafa kvikmyndir og æsifréttir haft eitthvað að segja. En það þarf ekki að óttast bandíta og eiturlyfjabaróna þegar farið er til Mexíkó –það eina sem þarf að óttast er að eiga erfitt með að snú aftur heim eftir að hafa komist í tæri við heillandi þjóð, með sína mergjuðu sögu og litríku menningu. Að ekki sé talað um matarmenninguna: hvað jú er til betra en alvöru taco, með logandi heitir sósu? Hvað með að panta eina væna gordítu úti á götu? Kannski má skola henni niður með Corona eða rammsterkum tequila.

 
Hvert er svo ferðinni heitið? Kannski væri gaman að kíkja á slóðir James Bond í Mexíkóborg, rölta um gamla bæinn og kíkja á heimili Frídu Kahlo. Það er líka engu líkt að rölta umhverfis Chichen Itza á Yucatanskaganum, þar sem áður stóð ein af goðsagnakenndum höfuðborgum Maya-veldisins.
Þeir sem vilja fjör og læti taka stefnuna vitaskuld beint á Cancún á austurströndinni, eða Acapulco á vesturströndinni. Þar skín virðist sólskin alla daga, strandirnar hvítar, gleðin er við völd og lífið fjarska notalegt. Um landið allt er svo að finna óviðjafnanlega náttúru: vígalegir jagúarar hafa ráfað um skógana frá fyrstu tíð, litskrúðugir páfagaukar flögra á milli trjátoppanna og í sjónum má kafa með skjaldbökum og furðufiskum.

 

Hafðu samband!
Leyfðu okkur að hjálpa!
Við klæðskerasníðum ferð fyrir þig á þeim tíma, af þeirri lengd og með þeim áföngum sem þú kýst.

 

Ferðir til Mexíkó á vegum Farvel