Þetta merkilega litla land er ekki áberandi á heimskortunum, og virðist hálfpartinn úr alfaraleið Kyrrahafsmegin á Suður-Ameríku. Þegar Perú berst í tal er helst að lamadýr og skrautlega klæddir naggrísir komi fólki til hugar. Sumir nefna rithöfundinn Mario Vargas Llosa, aðrir óperusöngvarann Juan Diego Florez, en átta sig svo óðara á að frægasti Perúbúi sögunnar er án vafa bangsinn Paddington. Nefndu Paddington við heimamenn og þeir munu hvá. Marmelaði hvað?
Perú er heill heimur, með ríka og einstaka sögu, framúrskarandi matarmenningu og litríkt samfélag. Fólkið sem byggir landið er svo kafli út af fyrir sig; hlýlegt, gestrisið og yndislegt.
Það er vel þess virði að gera sér sérstaka ferð til Perú, en líka upplagt að hafa góða viðdvöl í Lima sem hluta hringferðar um álfuna.
Dullarfulla Inka-byggðin í fjöllunum, Machu Pichu, er skyldustopp – undur veraldar sem allir ættu að sjá einu sinni á ævinni, og helst á meðan þeir hafa heilsuna til að láta þunna háfjallaloftið ekki fara alveg með sig. Það má líka taka stefnuna á frumskóginn og sjá hvort jagúar eða púma leynist uppi í tré. Óttalausa fólkið skellir sér í flugferð á einshreyfilsvél yfir Nasca-línunum, og láta ekki smá ókyrrð í lofti fara með taugarnar.
Verja ætti tíma í að upplifa mannlífið og býr t.d. höfuðborgin Lima yfir ákveðnum sjarma, þó fátæk sé og fábrotin. Veitingastaðina mætti þræða og smakka t.d. ceviche; hráan fisk maríneraðan í sítrónusósu, eða kaupa ljúffengt tamale úti á götu. Matgæðingarnir láta ekki perúska súshíið framhjá sér fara, en allstór hópur Japana fluttist til landsins á sínum tíma og bræddu saman matarhefðir landanna. Fagurgylltur þjóðardrykkurinn Inca-Cola þykir fara vel með súshíinu.